mánudagur, október 17, 2005

Bloggið mitt komið í vetrarbúning.

Nú er ný vika gengin í garð og nóg að gera eins og svo oft áður.

Helgin var skemmtileg þar sem við fórum í partý hjá Þorbjörgu og Sölva í Furugrundina góðu. Eftir partý var haldið niður í bæ með súper-dúper leigubílstjóra sem við neyddum til að hlusta á Rass alla leiðina niður í bæ og görguðum hástöfum með. Það endaði með því að hann spurði okkur hvort við ættum eina panodyl!! Við kíktum inn á Hressingarskálann. Ég er ekki að ná þessum ,,hressingar" skála... í hvert skipti sem ég hef komið þangað er staðurinn fullur af kófsveittu fólki og þvílíkur mökkur af reykingarlykt - jakk. Það má eiginlega segja að við höfum flúið staðinn og héldum upp Laugarveginn í átt að Oliver.

Það voru margir í bænum, enda yndislegt veður og góð stemming. Fyrir utan Oliver tók samt alvaran við þar sem við komum að stelpu í röðinni sem virðist hafa fengið krampa eða eitthvað, allavega lá hún í götunni. Allt í einu komu tveir löggubílar og tveir sjúkrabílar og menn sem fóru að hamast á aumingja stelpunni og hún sveiflaðist upp og niður. Það má segja að það hafi runnið af okkur á örskotstundu og það var svolítið magnað að vera þarna og fá þetta allt beint í æði (sérstaklega með hjúkkuna á hægri hönd og neyðarvörðinn á þeirri vinstri).

Eftir Bráðavaktaratriðið röltum við niður á Lækjartorg þar sem einn meðlimur hópsins þurfti lífsnauðsynlega að fá sér ,,Big-Burrito" á Mamas Tacos. Þar tók enn eitt atriðið við. Í fyrsta lagi vildi það svo skemmtilega til að allir úr partýinu fóru þangað á sama tíma og sameinuðust á ný, en í öðru lagi þá voru klikkuð hjón á miðjum aldri með ,,skemmtiatriði". Þannig var að eigandi staðarins er einhver ,,foli" og af erlendi bergi brotinn. Hjónin á miðjum aldri komu þarna inn og byrjuðu að vera með eitthvað bögg við Adda og Sölva og gerðu ekki annað en að tala um Stöð2 og böggast. Síðan komu þau með það óvænta; þau æptu yfir staðinn að eigandi staðarins væri barnaníðingur og að við værum öll að taka þátt í því með því að vera þarna - hann fengi mikið út úr því að r.... börnum og hefði verið með 17 ára dóttur þeirra og bla bla bla.. og gestirnir fóru að reyna að þagga niður í kellunni sem endaði með lögreglumáli. Við vorum einmitt að velta því fyrir okkur hvar vesalings 17 ára dóttir þeirra væri á meðan foreldrarnir voru blindfull niðri í bæ að gera sig að fíflum. Þetta snérist allavega upp í algjöra sápuóperu og brandara fyrir okkur og við hlógum og hlógum :þ Síðan var haldið heim þegar klukkan var langt gengin í 5!

Brynjar var í pössun hjá mömmu og Ásgeiri þannig að við skötuhjú gátum sofið út, tekið til og lært heilmikið áður en hann kom heim aftur blessaður. Við löbbuðum síðan niður á Hofteig og komum að þeim þremur við að raka lauf úr garðinum og aðstoðuðum þau við að raka og setja í poka.

Addi fór síðan á næturvakt til kl.8 í morgun og þannig mun hann vinna alla þessa viku. Greyið er síðan í skólanum á daginn og skrifar ritgerðir á kvöldin. Ég skil ekki hvernig þetta er hægt :O

Brynjar er að byrja í dansi á leikskólanum í þessarri viku. Það var boðið uppá námskeið í dansi til jóla og við leyfum honum að sjálfsögðu að fara á það. Hann er síðan að fara í leikhús með Kristínu, Gísla, Ellu og Mikael um næstu helgi að sjá Ávaxtakörfuna í Loftkastalanum, það verður örugglega rosalega gaman.

Ég var að skila ritgerð í Leiklist í kennslu á unglingastigi með þeim Ingu Emils og Erlu Maríu í gær. Í dag þurfti ég að endursegja þjóðsögu í Talað mál og framsögn og ég ætla ekki einu sinni að ræða um það hér - úff, það var erfitt. Ég ætla að enda í dag á þjóðsögunni ,,Ódámur, ódámur! Fussum, fussum!" sem ég endursagði í skólanum í dag.


Einu sinni bjó maður að nafni Guðmundur á bænum Brunngili sem stóð í syðri dalnum sem gengur fram af Bitrufjarðarbotni. Sögur segja að tröllkona byggi framar á dalnum en Guðmundur lagði lítinn trúnað á þær. Hann gekk þangað ávallt til grasa og hafði aldrei orðið trölla var.

Haust eitt gerði hlýviðri og þokur miklar og var veðrið hentugt til grasatekju. Guðmundur gekk fram á dalinn eins og hann var vanur og þegar leið að kvöldi hélt hann heim á leið. Er hann hafði gengið drjúga stund sá hann afar stórvaxna konu sem stefndi í áttina til hans. Guðmundi leist ekki á að verða á vegi kerlingar og greikkaði sporið en kerla stikaði þá stórum til að komast fyrir hann og kallaði: „Flýr þú nú Gvöndur?“ Enn síður leist Guðmundi á að eiga nokkur viðskipti við tröllið eftir að hafa heyrt til hennar og tók til fótanna í átt heim að bænum.

Á hlaupunum leit hann um öxl og sá að skessan elti hann og dró á. Guðmundi varð ljóst að hann hefði ekki við kerlu á hlaupum svo hann brá á það ráð að hneppa frá sér buxunum. Þegar skessan átti skammt ófarið til að ná honum, snarstansaði hann, sneri sér við og gyrti niður um sig. Kerlingin stakk við fótum, góndi á hann neðan mittis og hrópaði: „Ódámur, ódámur! Fussum, fussum!“ og tók síðan á rás til fjalla. Guðmundur hysjaði upp um sig buxurnar, hélt heim á leið og varð ekki framar kerlingunnar var.

Frá þessum degi hefur drengjum í Strandasýslu verið kennt það óbrigðula ráð að gyrða niður um sig ef þeir rekast á tröll á fjöllum uppi og hræða þau þannig burt.

Þar hafið þið það!
p.s. söguna fékk ég á vestfjarðarvefnum.

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Bloggers reshape coverage of college issues
Online offerings target University racial incidents and University of Oklahoma suicide incident Maria McLemore, Cavalier Daily Staff Writer Increasingly, media coverage of college-related incidents is conducted ...
Hey, you have a great blog here! I'm definitely going to bookmark you!

I have a make extra money site. It pretty much covers make extra money related stuff.

Come and check it out if you get time :-)

17 október, 2005 17:19  
Anonymous Nafnlaus said...

ÉG held svei mér þá að við munum lifa á þessari bæjarferð þar til kemur að köbenferðinni.. þetta var ekkert venjulegt..
en allavega.. flott nýja "lúkkið" á síðunni þinni og alltaf jafn gaman að lesa..

en ég var að spá.. "ert þú þessi RaHúúúl"
;)

haha..
kv Þorbjörg

17 október, 2005 17:22  

Skrifa ummæli

<< Home