Dagurinn í dag.
2. bekkur 2004-2005.
Ég get ekki lýst því með orðum hvað ég er hamingjusöm og glöð með daginn í dag.
Ég fór á skólaslit hjá Grunnskólanum á Hólmavík með kvíðahnút í maganum og söknuð í hjartanu. Þetta voru síðustu skólaslitin mín - í bili. Ég sat með vitnisburð barnanna í 2. bekk í umslagi ásamt umsögn og bréfi sem ég skrifaði til hvers og eins nemanda. Afhending einkunna fór vel fram og hélt Victor skólastjóri fínustu ræðu. Ég veit ekki fyrr en foreldrar nemenda í 2. bekk hafa beðið um orðið og þar kemur Ragnheiður, mamma Odds Kára fram ásamt þremur guttum úr bekknum og færir með risastóran og ótrúlega fallegan bleikan blómvönd, silfurhálsmen með steini og svakalega fallegt grænt sjal sem þakklætisvott og kveðjugjöf frá nemendum mínum.
Ég er ólýsanlega þakklát fyrir það traust sem nemendur mínir og foreldrar þeirra hafa sýnt mér síðustu tvo vetur. Þetta er búinn að vera frábær tími sem ég mun aldrei gleyma. Ég kynntist sex ólíkum persónum náið og fékk að fylgja þeim í góðan tíma. Sú virðing sem mér var sýnd í dag gefur mér ótrúlega mikið og er mér mjög mikils virði. Ég faðmaði börnin og foreldra þeirra og kvaddi þau grátandi, en það má segja að þessi tár hafi verið gleðitár því ég hef svo mikla trú á þessum krökkum og óska þeim alls hins besta í framtíðinni.
Síðan þegar ég kom heim eftir að hafa snætt kvöldverð á Café Riis með tveimur góðum vinkonum beið mín rós og mynd í ramma ásamt yndislegu bréfi frá nemenda mínum.
Þessum degi mun ég aldrei gleyma og kveð Hólmavík með söknuði og ótrúlega góðri tilfinningu í hjartanu. Takk fyrir mig!
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home