sunnudagur, maí 08, 2005


Ragga og Hildur

Það sem á daga mína hefur drifið er það að ég er búin með stærðfræðiprófið mikla sem ég var búin að kvíða mikið fyrir. Það var rosalegur léttir að vera búin með það. Nú er ég að lesa fyrir próf í NKS - nám, kennsla og sérkennsla. Ég fer í það á þriðjudaginn 10. maí.

Á uppstigningadag fórum við, litla fjölskyldan, í ferð að Laugarhóli í Bjarnafirði. Við skelltum okkur í sund og heitan pott sem var með eindæmum gott og gaman.

Á föstudaginn skellti ég mér síðan suður til Reykjavíkur og við Brynjar og mamma fórum í sund í Laugardalslaugina. Þetta er orðið gríðarlegt mannvirki þarna í Laugardalnum, en samt alveg jafn fínt að fara þar í sund eins og vanalega... svona þegar við fundum loks búningsklefann ;)

Á laugardaginn var opinn dagur hjá Nóaborg (leikskólanum sem Brynjar mun fara í næsta haust). Þar heimsóttum við Fiskadeild, keyptum okkur kaffi og pönnsu, spjölluðum við starfsfólk og krakka og lékum okkur í garðinum. Brynjar var voða ánægður með þetta og það var svo gaman að hann vildi ekki einu sinni fara þaðan. Nú skilur hann betur hvað Nóaborg er og við getum spjallað saman um breytingarnar næsta haust.

Eftir það fengum við mamma að skoða íbúðina okkar í Skipholtinu. Það var rosalega spennandi og hún leit virkilega vel út! Allt nýtt, eikarparket og flísar á gólfum og innréttingar út hlyn - mjög smart allt saman :)

Eftir það fór ég til Sigrúnar vinkonu og litlu prinsessunnar hennar sem er bara 3ja vikna gömul. Guð, hún er svo lítil og nett litla snúllan. Ég vissi ekki alveg hvernig ég ætti að halda á henni - hún var svo agnarsmá! Hún braggast og nærist vel og er alveg eins og mamma sín. Það var allt svo fínt hjá henni Sigrúnu minni og hún leit rosalega vel út!

Um kvöldið hitti ég síðan Þorbjörgu, Röggu og Sonju - í nýju íbúðinni þeirra Þorbjargar og Sölva. Við snæddum rosa máltíð að hætti Þorbjargar og sátum og spjölluðum fram á nótt. Það var æðislegt að hitta stelpurnar og það er svo frábært hvað þær eru allar að gera eitthvað skemmtilegt og spennandi! Við stefnum að því að skella okkur til Köben í nóvember - meira um það síðar.

Við Brynjar erum nú komin heim á Hólmó - en það var ófögur sjón sem blasti við okkur þegar við komum heim! Það hefur sprungið lögn í veggnum inn í geymslu og það flæddi vatn inní geymslu og smá inn í eldhús. Parketið er að hluta skemmt og komið gat á vegginn þar sem þeir bræður Addi og Jón Gísli eru að vinna að viðgerð.

Skotta Dillirófa fer í fóstur til ömmu sinnar á Höfðagötunni þegar við flytjum suður! Þvílíkur léttir að vera komin með þau mál á hreint.

Ég skellti inn myndum af okkur fjórum, mér, Sonju, Röggu og Þorbjörgu í banastuði í sumar. Það má segja að þær stöllur lifi sig inn í tónlistina þar sem þær sitja í sófanum!

Tjá - bella!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home