laugardagur, ágúst 12, 2006

Ég var að sækja fartölvuna mína úr viðgerð. Á tæpu ári hefur þessi hundrað þúsund króna gripur bilað tvisvar sinnum. Í fyrra skiptið fékk ég vírus eða orm í tölvuna og nú í það seinna fór harði diskurinn. Tölvan er vissulega í ábyrgð en ég þurfti að borga 20.000 kr. fyrir að ná gögnunum út úr henni og síðan þarf ég að setja inn hugbúnaðinn upp á nýtt með tilheyrandi kostnaði. Ég reyni í sífellu að sannfæra sjálfa mig um að ég fái mun betri tölvu fyrir vikið og í þetta sinn verða sett í hana öll þau forrit og þægindi sem ég óska mér. Samt sem áður setti ég traust mitt á eitt stykki tölvu og á tíma örvæntingarinnar var ég alveg viss um að tölvan héldi utan um allt mitt og nú væri það glatað!

Ég velti fyrir mér hvert stefni í slíku upplýsingasamfélagi sem við búum í? Mikilvægi þess að hafa aðgang að upplýsingum og kunnáttu til að vinna úr þeim hefur farið vaxandi að undanförnu og hefur það ákveðið notagildi fyrir ákvarðanir og velgengni einstaklinga hvort sem það er innan vinnunnar, skólans eða samfélagsins í heild sinni.

Nútíma samfélög standa frammi fyrir afleiðingum eigin verka því þróun tækniþekkingar er komin á það stig að maðurinn hefur þróað margvíslega tækni sem getur ógnað tilveru mannsins. Við erum ekki lengur hrædd við náttúruöflin, nú erum við hrædd við mennina. Það er ekki hægt að skella sér til London í helgar-skemmtiferð án þess að hugsa um hryðjuverk! Áður útrýmdu kuldaskeið, eldgos og pestir stórum hluta þjóðarinnar með reglulegu millibili. Það er nú ekki langt síðan náttúruöflin minntu á sig þegar snjóflóðin dundu á vestfirðina en þá ræddu menn um að almannavarnir hefðu brugðist og að skipulag byggðarinnar hefði ekki verið nægilega gott.... s.s. tækni mannanna klikkaði. Hvar endum við?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home