Fyrsti sunnudagur í aðventu!
Jæja þá er ég loksins komin niður á jörðina eftir Köbenferðina. Mikið var nú gaman og mikið sakna ég stelpnanna mikið. Það er einhvern veginn bara þannig að maður gefur sér aldrei tíma til þess að hitta aðra nema að það sé alveg þrælskipulagt! Hvernig stendur á því?
Við vorum að koma að norðan, enda var það skipulagt ;) Pabbi var svo góður að lána okkur jeppann og við brunuðum eftir skóla á föstudaginn með báða strákana okkar. Við gistum hjá Svönu og Nonna í tvær nætur og Jóni Gísla og Brynju í nótt en við höfðum íbúðarskipti við þau síðarnefndu. Mikið var nú gott að komast aðeins norður og hitta vini og ættingja og upplifa veturinn í allri sinni dýrð. Það að vakna og líta út um gluggann og horfa út á hafið í þvílíkum birtuskilyrðum og hlusta á fuglana kvaka og syngja er engu líkt!
Ég hitti vinkonur mínar þær Huldu Hrönn, Stínu Einars og Ingu Emils. Ásdís tengdamamma tók vel á móti okkur með ostum og tilheyrandi á föstudagskvöldið og bauð okkur síðan í ljúffengan lambahrygg með öllu tilheyrandi á laugardagskvöldið. Við áttum afar heimspekilegar og skemmtilegar umræður um lífið og tilveruna. Í gær kíktum við síðan upp í Steinadal til Gústa tengdapabba og í dag komum við við á Kirkjubóli. Við komum tvisvar við hjá Hrafnhildi og Hadda en þau voru ekki heima.
Víð kíktum til Lilla í Víkurtún 17 (íbúðina okkar) og sóttum smá hluta af jólaskrautinu okkar. Ég ákvað bara að taka lítið af því í bæinn, bara það allra helsta eins og jólatréð, aðventuljós, jólaóróana, kirkjuna mína og nokkra jólasveina. Ég á enn eftir að útbúa mér aðventukrans. Ég er að hugsa um að fara að ráði Þorbjargar vinkonu minnar og hafa hann einfaldan þetta árið. Ég mun þá kveikja á fyrsta aðventukertinu á morgun.
Hvernig væri nú að fræða ykkur aðeins um aðventuna í desember. Ég kenndi krökkunum í 2. bekk sitthvað um aðventuna fyrir jól í fyrra og komst þá að því að flestir kveikja á aðventukransinum án þess í raun að vita tilgang hans!
Aðventukransarnir eru eitt af augljósustu merkjum þess að aðventan er gengin í garð. Þau eru eitt það jólalegasta sem við setjum upp hjá okkur á jólaföstunni, og bera fjögur kerti, en logandi kertin merkja komu Krists og aðdragandann að henni. Fyrsta sunnudag í aðventu á að kveikja á fyrsta kertinu, á því næsta ásamt því fyrsta, annan sunnudag í aðventu og svo koll af kolli. Til er falleg vísa um kertin fjögur eftir Lilju Kristjánsdóttur sem gaman er að fara með þegar kveikt er á kertunum en nemendur mínir sungu einmitt þessar vísur og kveiktu á stórum kertum á jólaskemmtun Grunnskólans í fyrra.
1. vísa;
Við kveikjum einu kerti á,
Hans koma nálgast fer,
sem fyrstu jól í jötu lá
og jesúbarnið er.
Fyrsta kertið er Spádómakertið, það minnir á fyrirheit spámanna Gamla testamentisins, sem höfðu sagt fyrir um komu frelsarans, Immanúel Guð með oss. Þar hafið þið það!
3 Comments:
ÉG komst í algjört jólaskap við að lesa þessa færslu.. Þetta er sannkölluð aðventufærsla hjá þér Hildur mín.
.. það er svo kósý að hafa kerta- og jólaljós á aðventunni og piparkökur og tilheyrandi.
mmm..
kv Inga
Þakka þér fyrir það Þorbjörg mín! :)
já ég er sammála ykkur, þetta er æðislegur tími :) ..tala nú svo ekki um að vera búinn að öllu og skreppa í kringluna til þess að fylgjast með öðrum í stress kasti en sjálfur er maður þá bara að njóta lífsins ;)
kv. Ragga
Skrifa ummæli
<< Home