fimmtudagur, ágúst 25, 2005

Afmælisdressið komið í hús!


Í gær fór ég upp á Leifsstöð að sækja Þorbjörgu og Sölva sem voru að koma úr þriggja vikna dvöl á Barcelona. Haldiði að hún Þorbjörg hafi ekki keypt fyrir mig afmælisdress á Brynjar Frey í Zöru - alveg geggjað flott og EKTA fyrir hann.

Við gerðum mjög góð kaup í Góða Hirðinum í dag. Keyptum 10 bækur á aðeins 900 kr, þar af 5 barnabækur. Algjör snilld þessi búð!

Það er áríðandi fundur á Nóaborg á mogun og mikilvægt að allir sjái sér fært um að mæta. Það er spurning hvort að við þurfum að fara að vera með Brynjar heima vegna manneklu á leikskólum borgarinnar :/

Kvikmyndir sem ég hef séð nýlega:

Million Dollar Baby
Leikstjóri: Clint Eastwood.
Aðalhlutverk: Clint sjálfur, Morgan Freeman, Hilary Swank og fleiri góðir.
Mjög góð mynd með frábærum leikurum. Million Dollar Baby var öruggur sigurvegari síðustu óskarsverðlaunahátíðar og hreppti hún ein fjögur verðlaun; fyrir bestu mynd ársins, besti leikstjóri (Clint Eastwood), besta leikona í aðalhlutverki (Hilary Swank) og fyrir besta leikara í aukahlutverki (Morgan Freeman). Mér finnst það nú ekki skrítið eftir að hafa séð myndina enda er hér er á ferðinni ein af bestu myndum síðari ára. Ég hugsaði í fyrstu ,,já svona boxmynd, aha" en ég get fullyrt að hún er besta boxmynd sem komið hefur út og fjallar alls ekki bara um box - heldur kemur hún mjög á óvart. Þetta er mynd fyrir alla sem hafa gaman af góðum kvikmyndum og ég mæli með að allir sjái Million Dollar Baby.


Hide & Seek
Aðalhlutverk: Robert De Niro, Dakota Fanning og fleiri.
Ókey ég viðurkenni það að þessa tók ég fyrir Adda minn og hugsaði ,,hryllingsmynd-ókey ég læt mig hafa það" en síðan kom það í ljós að Addi var miklu hræddari að horfa á hana en ég. Ég held að hugurinn og ímyndunaraflið hafi rosa mikið að segja þegar maður horfir á svona myndir. Myndin var jú spennandi og kom vissulega á óvart og þar sem við tókum hana á DVD var hægt að sjá þrjá mismunandi enda á myndinni sem var svolítið skemmtilegt. Þetta var þó ekki ,,hryllingsmynd" að neinu tagi. Frekar svona dularfull klikkmynd myndi ég segja. Svolítið langdregin og róleg fyrir minn smekk en svosum allt í lagi.

Birth
Aðalhlutverk: Nicole Kidman og fleiri.
Nicole Kidman er frábær leikkona að mínu mati og lék mjög vel í þessari mynd. Varð þó fyrir svolitlum vonbrigðum með það hvað hún var rosalega hæg og langdregin en þó er myndin fín í heild sinni. Það er samt algjörlega verið að gera úlfalda úr mýflugu að mínu mati varðandi hneykslanleg atriði í þessari mynd. Ekki mynd fyrir alla!


The Motorcycle Diaries
Aðalhlutverk: Gael García Bernal, Mía Maestro og Rodrigo De la Serna.
Addi tók þessa og ég vissi strax að þarna var EKTA mynd fyrir hann. Skemmtileg tilbreyting að sjá mynd á öðru máli en ensku! Allt önnur menning og allt annar tíðarandi en við fáum að venjast þar sem myndin gerist á árunum í kringum 1950. Ég verð að viðurkenna það að ég veit nánast ekkert um Ernesto Guevera. Ég þekkti hann aðeins sem manninn á bolunum og vissi, eins og áður sagði, ekki glætu um hann. Hélt þó hann hefði verið einhvers konar pólítíkusarbyltingarmaður og hafði reyndar rétt fyrir mér varðandi það. Ég er í rauninni engu nær um stjórnarsögu hans eftir að hafað séð myndina. Enda fjallar myndin ekki um það tímabil í lífi hans. Sagan segir frá honum og félaga hans sem ákveða að halda á vit örlaganna í ferð um Suður-Ameríku á mótorhjóli. Þeir ferðast til að ferðast eins og Ernesto sagði í myndinni. Þeir höfðu áætlað að skemmta sér stórlega og kynnast hinni rómönsku Ameríku betur, fá þefinn af nýjum menningarheimum og fólki. Ferðin átti þó eftir að hafa miklu meiri áhrif á þá félaga en þeir höfðu nokkur tíma grunað. Alveg frábær mynd í alla staði - alveg út í gegn. Ekki spillti fyrir að leikarinn og Íslandsvinurinn Gael Garcia Bernal er himneskt augnayndi - úff - ég bara missti því miður alveg af því að hann hafi verið hér á landi. Alvarleg, fyndin, sorgleg, frábær! Mæli hiklaust með henni, fyrir alla.

Open Water
Engir þekktir leikarar. Rosalega sérstök mynd. Svona mynd sem Addi er samt alveg að missa sig yfir. Það er eins og hún sé heimagerð, sviðsetningin, klippingin, myndartakan og allt það. Ég hugsaði ,,er kallinn ekki kominn heim með einhverja hryllilega hákarlamynd - oj" og byrjaði því að horfa á hana með afar neikvæðu hugarfari, ég viðurkenni það. Ókey, Open Water er það sem þú færð út ef nokkrir bútar úr Jaws eru sameinaðir við The Blair Witch Project! Nei, nei, sem betur fer sést mjög lítið að hákörlunum og það sem gerir myndina svolítið spennandi og heillandi er það að hún er byggð á sannsögulegum atburði og það snertir mann vissulega. Myndin átti jú sín augnablik en kannski ekki nógu mörg fyrir minn smekk... Ekki mynd fyrir alla.

Eins og þið sjáið höfum við verið svolítil ,,video-nörd" í sumar, en það er bara svo óskaplega þægilegt þegar maður er með lítið barn sofandi inn í herbergi að fá skemmtunina beint heim í stofu, þegar manni hentar! Enda geturðu leigt nærri 5 nýjar og 5 gamlar spólur fyrir mánaðaráskrift að stöð2.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home