sunnudagur, júlí 10, 2005

Gubbupest :(

Á þriðjudagskvöld brunuðum við með strákana tvo út úr bænum í fínasta veðri og enduðum á Flúðum. Þar tjölduðum við og gistum í tvær nætur. Á miðvikudaginn var alveg geggjað veður - 20 stiga hiti og brakandi sól. Við áttum eiginlega bara erfitt með að vera þarna fyrir hita. Við fórum tvisvar sinnum í sund - sama daginn, kíktum á Geysi og sáum Strokk gjósa margoft við mikla hrifningu viðstaddra. Síðan héldum við að Gullfossi og löbbuðum alveg eins langt og við máttum fara. Fossinn var ansi magnaður og mikill að vanda og gnæfði fagur regnbogi yfir hann. Við vorum búin að vara Tómas mikið við að hann mætti alls ekki hlaupa neitt eða fara út á brún, því að það hefði erlend kona runnið þarna til og dottið og dáið fyrir nokkrum árum. Hann tók þessu mjög alvarlega og af og til var hann að spyrja um blessaða konuna. Síðan keyrðum við fram hjá gamla kvennafangelsinu, sem nú er orðið Edduhótel, og sögðum honum söguna á bak við húsið. Honum fannst þetta mjög merkilegt allt saman og er enn að spá í ,,kvennafangelsið". Næst verðum við bara að fara með hann í bíltúr fram hjá Litla Hrauni! Þetta var vel heppnuð ferð í alla staði og komum við brún og sæl til baka.

Í gærkvöldi buðum við mömmu og Ásgeiri í mat þar sem þau flugu til Þýskalands eldsnemma í morgun og koma ekki heim fyrr en 28. júlí n.k. Brynjar greyið var orðinn lasinn og er enn, með ælupest, liggur hér fölur, mikið lítill og slappur. Addi fór og söng í brúðkaupsveislu í gærkvöldi ásamt hljómsveitinni ÓÓM, þar sem Árdís er söngvari. Við strákarnir vorum bara hér og horfðum á Shrek2 og borðuðum ís úr Álfheimum :)

Við ætluðum að kíkja á Svamp Sveinsson í bíó í dag en það verður nú ekki mikið um það með litla kútinn svona.. Annars ætla ég að reyna að fara með Tómas og Söru á skemmtun sem er hérna í Lágmúlanum þar sem Hildur Vala, Nylon og einhverjir fleiri koma fram ásamt því að þar eru hoppikastlar og fleiri skemmtileg leiktæki, það fer svolítið eftir því hvernig Brynjar verður. Síðan ætlum við Sigrún vinkona út að borða í kvöld - bara tvær! ;)

Addi er búinn að vinna föstud, laugard og sunnudag og kemst í 2ja daga frí kl.18:30 í kvöld.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home