sunnudagur, október 30, 2005

Tímamót í lífi ungrar sálar.

Helgin er búin að vera frábær í alla staði!

Á fimmtudaginn fór ég á fund með foreldraráði Nóaborgar. Þar var ég kjörin formaður foreldraráðs Nóaborgar 2005-6 og er bara mjög spennt að takast á við það embætti. Um kvöldið fór ég síðan út að borða með Köben-gellunum, Sonju, Þorbjörgu og Röggu á Oliver þar sem við hituðum okkur upp fyrir ferðina miklu.

Við Brynjar kíktum í kaffi til Kristínar á laugardaginn, alltaf jafn fínt að koma til þeirra. Ég kíkti í hið nýja Blómaval í Skútuvogi og hitti þar Hólmavíkurskvísurnar Stínu Sigmunds og Huldu Hrönn. Vegna mikils sparnaðar var ekkert verslað en búðin er æðisleg! Full af fallegum gjafavörum, jóladóti, skrauti, föndri, blómum, húsbúnaði og já bara öllu. Um kvöldið komu síðan mamma og Ásgeir til okkar í ,,ekta-homemade-kjötbollur" og Hulda kom síðar um kvöldið og við spjölluðum til kl.3!.

Í dag skelltum við okkur í húsdýragarðinn og kíktum á dýrin í þessum hræðilega kulda - brrr. Þar sáum við snæugluna Snæfríði sem virðist braggast vel í garðinum. Fyrir þá sem ekki vita þá fannst Snæfríður á Ströndum (sjá mynd að neðan). Ég tók mynd af henni fyrir hann Tedda minn, fyrrverandi nemanda minn, pabbi hans fann hana og ég var búin að lofa honum að fara að kíkja á ugluna og senda honum síðan myndir - sem ég ætla að sjálfsögðu að gera!

Við erum búin að vera að glíma við að láta Brynjar Frey hætta með snuð en aldrei tekist það alveg (alltaf verið of lin:/). Okkur finnst alveg vera kominn tími til að hann hætti alveg enda skilur ekki nokkur maður hann þegar hann talar með þennan tappa upp í sér.
Í sumar reyndum við að fá hann til að gefa litlum kálfi það í Húsdýragarðinum, sem hann gerði, en þegar heim var komið voru snuddur hér og þar í íbúðinni sem þýddi að hann hætti ekki með snuð.

Í dag gaf hann litla kálfinum aftur á móti snuðIN sín með það í huga að hann væri að hætta að nota þau, enda erum við búin að vera að röfla um þetta mikið síðustu daga. Við stálumst til að leyfa kusu litlu að prófa snuðið fyrir framan Brynjar og hann var alveg til í að leyfa henni að eiga snuðin sín þannig að við hengdum þau á þar til gerð Snudduhorn. Eftir það gengum við um garðinn og skoðuðum fleiri dýr og aldrei minntist ungi maðurinn á snuðin.

Brynjar byrjaði síðan að sjá eftir þessu um leið og við komum í bílinn, enda var hann orðinn dauðþreyttur greyið - en við vorum búin að gefa öll snuðin þannig að það var ekkert annað í stöðunni en að bíta á jaxlinn. Þegar heim var komið hófst mikil leit að snuði og grátur og söknuður sem endaði með því að hann fann eitt dótasnuð með blikkandi ljósum sem hann hefur aldrei viljað vera með, enda er það svona hart og algjört verslunarmannahelgar-dótadrasl.

Núna sefur engillinn minn, í rúminu sínu, með Lilla sinn og blikkandi drasl-dótasnuð uppí sér :) Þetta eru mikil tímamót í lífi hans enda búinn að eiga snuð síðan hann var klukkutíma gamall! Við foreldrarnir erum auðvitað rosalega stolt af honum og örlæti hans og ætlum að vera einstaklega umburðarlind og þolinmóð næstu daga í þeirri von um að hann verði ekki með verlsunarmannahelgar-dótadrasl-snuðið til þrítugs :)

8 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

OOOH é kenni svo í brjósti um lítinn snuddulausan mann

31 október, 2005 00:34  
Anonymous Nafnlaus said...

Þetta tekur samt ótrúlega stuttan tíma þ.e.a.s ef þið foreldrarnir gefið ekki eftir. Mín hafa öll verið með snuð og það tók ekkert á að venja þau af þeim. Þau voru reyndar bara með þau þegar þau fóru að sofa, þá er þetta eitthvað auðveldara. Verið hugrökk, hann er bara 3 ára þið fullorðin

31 október, 2005 08:21  
Anonymous Nafnlaus said...

Hehe já nákvæmlega. Þetta hefur eiginlega bara snúist um það að við höfum alltaf gefið eftir og leyft honum að nota snuðið. Nú ætlum við að vera hugrökk og standa okkur! Þetta er samt svo fyndið hann leitar að snuðinu eins og einhver fíkill... en síðan á hann eftir að gleyma þessu! Takk fyrir orðsendinguna Sabba mín ;o)

31 október, 2005 10:44  
Anonymous Nafnlaus said...

Til Brynjars: Mér finnst þú rosalega duglegur strákur Brynjar minn og góður að gefa kusunni dudduna þína.

sjáumst stóri strákur.

kv Þorbjörg vinkona

31 október, 2005 15:25  
Anonymous Nafnlaus said...

það er allveg órtúlegt hvað erlendir netverjar hafa mikinn áhuga á blogg skrifum þínum,

Annars fóru snuðin hér auðvita í litlu lömbin en Laufey fékk reyndar líka verðlaun fyrir að hætta (gamlan og sjálfsagt eina verðlauna peninginn sem Reynir eignaðist) og hún var bara mjög lukkuleg með það. 1. sætið virkar.

31 október, 2005 18:24  
Anonymous Nafnlaus said...

Í hverju var Reynir í 1. sæti? :o)

01 nóvember, 2005 01:09  
Anonymous Nafnlaus said...

Nei Laufeyju var talið trú um að hún væri í 1. sæti. ("þú vannst af því að þú varst svo dugleg að hætta með snuð")
Reynir fékk peninginn á skíðamóti þar sem hann var starfsmaður (það var bara til svo mikið af peningum að starfsmennirnir fengu líka.(Annars efast ég ekki um að hann var í 1. sæti sem afburðar starfsmaður)
En hvernig gengur að vera hættur?

02 nóvember, 2005 18:19  
Anonymous Nafnlaus said...

Hvað segiði þarna elskurnar.. eruði kát og hress..

það er vika í herlegheitin.. ;)

kv Ingalingalóló

04 nóvember, 2005 10:47  

Skrifa ummæli

<< Home